Ýsa Gullkarfi Þorskur Bleikja Lax

Ýsa

Melanogrammus aeglefinus

Í fáeinum orðum

Er nokkuð eins tryggilega samofið þjóðarsálinni og holl og heiðarleg ýsa? Ýsa hefur verið vinsælasti fiskurinn á borðum landsmanna í háa herrans tíð en samkvæmt skýrslu Matís frá 2011 borða Íslendingar á aldrinum 18–80 ára ýsu 4–5 sinnum í mánuði.

Heimaslóðir ýsunnar eru beggja vegna í Norður-Atlantshafi. Við Íslandsstrendur finnst ýsan hringinn í kringum landið en þó einkum í hlýjum sjó við suður- og suðvesturströndina. Ýsa er grunnsævis- og botnfiskur sem lifir einkum á 10–200 m dýpi en finnst þó einnig á meira dýpi. Hún nærist á fjölbreyttu fæði, svo sem botndýr á borð við skeljar, smásnigla og ígulker en einnig aðra fiska eins og marsíli og loðnu. Elsta ýsan við Íslandsstrendur svo vitað sé til var 18 ára og sú lengsta sem veiðst hefur var 112 cm að lengd. Stærð tegundarinnar getur hins vegar ráðist talsvert af aldri og fæðuframboði og er ýmist talað um smáýsu (25–45 cm, 2–3 ára), miðlungsýsu (45–60 cm, 3–5 ára) og stórýsu (60 cm og lengri, 6 ára og eldri).

Hin blágráa ýsa þekkist einkum á dökkri rák sem liggur eftir bol hennar. Rákin var forðum útskýrð með þjóðsögu af kölska en í raun er hún skynfæri sem gerir fisknum kleift að skynja straumstefnu og bylgjustyrk í hafi. En ef góð þjóðsaga á ekki að líða fyrir sannleikann, þá eru rákin sem og dökkir blettir ofan við eyrugga ummerki eftir neglur kölska sem í fyrnsku reyndi að veiða ýsuna sér til matar án árangurs.

Sem fyrr segir hefur ýsa löngum verið uppáhald Íslendinga og má nánast ganga út frá því að hvert mannsbarn hérlendis hafi alist upp við ýsu vikulega. Eflaust hafa því allir skoðun á því hvernig best er að matreiða hann en algengt er að hann sé gufusoðinn, steiktur eða ofnbakaður.