Ýsa Gullkarfi Þorskur Bleikja Lax

Þorskur

Gadus morhua

Í fáeinum orðum

Trúlega hefur enginn fiskur reynst þjóðinni betur en þorskur enda hefur hann alla tíð verið verðmætasti nytjafiskur þjóðarinnar og er sú fisktegund sem Íslendingar veiða langsamlega mest af.

Að undanskildu hafsvæðinu umhverfis Íslands finnast nokkrir staðbundnir þorskstofnar beggja vegna í Norður-Atlantshafi. Með öðrum orðum finnst þorskur á Íslandsmiðum, í Barentshafi, Norðursjó, umhverfis Færeyjar, Svalbarða og Grænland, í Eystrastalti og frá Hudsonflóa til Suður-Karólínu undan ströndum Norður-Ameríku. Þorskur er botnfiskur sem kann best við sig í 4–7°C og lifir á dýpi allt niður í 600 metra en leitar oft mun ofar í ætisleit. Þorskur er sagður einkar gráðugur og sannkölluð alæta því flestir ef ekki allir hópar sjávardýra hafa fundist í meltingarfærum tegundarinnar — þar á meðal þorskseiði. Mikilvægasta fæða fullorðins þorsks er hins vegar loðna.

Stærsti þorskur sem veiðst hefur við Íslandsstrendur var hvorki minna né meira en 186 cm að lengd og er jafnframt talinn sá stærsti sem hefur veiðst á öllu Norðaustur-Atlantshafi. Vöxtur tegundarinnar er breytilegur eftir hafsvæðum en til samanburðar er algengt að þorskur sem veiðist við suðvesturland sé 70–90 cm.

Sem mest veiddi fiskurinn við Íslandsstrendur hefur þorskurinn verið lengi í hávegum hafður og prýddi um tíma skjaldarmerki þjóðarinnar. Hann hefur verið milli tannanna á landsmönnum í bókstaflegri sem yfirfærðri merkingu svo öldum skipti en óhemju mörg nöfn eru til yfir fiskinn í íslenskri tungu og þá einkum í talmáli sjóara. Hann hefur meðal annars verið kallaður auli, fyrirtak, styttingur, stútungur en þekktasta gælunafn hans er sennilega sá guli.

Sá guli er sannkallað lostæti, hvort sem hann er ofnbakaður í góðri sósu heima í eldhúsi eða hreinlega djúpsteiktur með frönskum kartöflum í matarvagni.