Ýsa Gullkarfi Þorskur Bleikja Lax

Lax

Salmo salar

Í fáeinum orðum

Atlantshafslaxinn er göngufiskur sem þýðir að þeir klekjast út í ferskvatni og alast þar upp sem seiði í u.þ.b. þrjú ár og ganga þá til sjávar. Þar dvelur laxinn fram að kynþroska, sem tekur yfirleitt upp undir þrjú ár, þar til hann gengur aftur upp í ána sem hann ólst upp í og hrygnir þar. Þetta gerist oftast á sumrin. Talið er að laxarnir rati til æskuslóða sinna í krafti þefskynsins en það er þúsund sinnum næmara en þefskyn hunda, ótrúlegt en satt.

Þegar laxinn gengur upp árnar hættir hann að éta og einbeitir sér að því að finna góðan hrygningarstað. Í ljósi þessa hafa menn lengi velt fyrir sér hvers vegna fiskurinn bítur á veiðarfæri laxveiðimanna en hugsanlegt er að um einhvers konar árásarhegðun sé að ræða.

Atlantshafslaxinn lifir beggja vegna í Norður-Atlantshafi en á Íslandi er hann einkum áberandi í ám, á Suður-, Vestur- og Norðurlandi. Oftast verður lax 60–100 cm en hann getur orðið 150 cm og 50 kg. Lengsti laxinn sem hefur veiðst hér á landi mældist 132 cm og veiddist við Grímsey vorið 1957 og er oft kallaður Grímseyjarlaxinn.

Laxveiði hefur verið stunduð hér á landi frá landnámsöld og veiðist hann í um 80 ám hérlendis. Áður fyrr var hann veiddur í net og laxakistur en nú má aðeins veiða í net á örfáum stöðum, annars eingöngu á stöng. Lax er vinsælasti eldisfiskurinn hér á landi og raunar í heiminum öllum. Hér á landi voru framleidd 8.000 tonn árið 2016 en heildarframleiðsla fiskeldis nam 15.000 tonnum.

Niðurstöður mælinga benda til þess að íslenskur eldisfiskur innihaldi um 1/10 af gildandi mörkum fyrir díoxín í fiski og eru gæði afurðanna því mikil. Í ofanálag er næringargildi laxins mikið enda er hann próteinríkur og inniheldur einstaklega mikið af löngum omega-3 fitusýrum. Algengast er að fólk gæði sér á soðnum, steiktum eða grilluðum laxi en einnig tíðkast að reykja hann eða grafa — og er hvert öðru ljúffengara.