Ýsa Gullkarfi Þorskur Bleikja Lax

Gullkarfi

Sebastes marinus/norvegicus

 Í fáeinum orðum

Fjórir karfastofnar halda til á Íslandsmiðum og nefnist einn gullkarfinn. Litur hans er gullinn líkt og nafnið gefur til kynna meðan litur hinna er meira rauður. Á frændtungum okkar færeysku og sænsku nefnist gullkarfinn kongafiskur og kungsfisk, eða „konungsfiskur“ á íslensku.

Gullkarfinn heldur til allt í kringum Ísland og er veiddur allt árið um kring. Gullkarfi er botn- og miðsjávarfiskur sem unir sér best í 3–5 gráðu heitum sjó á 100–400 metra dýpi. Þar lifir hann einkum á ljósátu, rauðátu og öðrum smákröbbum og hryggleysingjum auk þess að éta smáfiska eins og loðnu.

Ólíkt mörgum fisktegundum gýtur karfinn lifandi afkvæmum en aðalgotstöðvar hans í Norðaustur-Atlantshafi eru suðvestur af Íslandi. Hrygnan gýtur yfirleitt í maí og gýtur þá 40–400 þúsund seiðum sem þykir mikið miðað við aðra fiska sem gjóta lifandi afkvæmum en lítið miðað við aðra fiska sem hrygna. Seiðin eru 5–7 millímetrar að lengd við got. Gullkarfinn er hægvaxta en langlífur. Hann verður kynþroska 14–16 ára og vegur þá yfirleitt um 700 g.

Þótt karfi hafi verið einn helsti nytjafiskur Íslendinga um áratuga skeið hófu Íslendingar sjálfir ekki karfaveiðar til manneldis á Íslandsmiðum af alvöru fyrr en eftir seinna stríð. Þjóðverjar og fleiri þjóðir veiddu hins vegar karfa hér við land fyrir þann tíma og var stór hluti þess karfa sem var á boðstólum í Evrópu á millistríðsárunum veiddur við Ísland. Þó ber að nefna að í Fiskætasálmi Hallgríms Péturssonar segir: „Karfinn feitur ber fínan smekk“ — og má því ætla fiskurinn hafi raunar fundist á borðum landsmanna á 17. öld.

Gullkarfi er góður matfiskur sem hentar vel hvort sem er á grillið, í gufusuðu, til að steikja eða ofnbaka. Hann er jafnframt ríkur af próteinum, ómega-3 og snefilefnum eins og seleni, joði og D-vítamíni. Ómega-3 fitusýrur hafa áhrif á myndun efna sem hafa góð áhrif á blóðþrýsting, blóðstorknun, bólgu og ónæmissvörun svo eitthvað sé nefnt. Það má því með sanni segja að gullkarfi sé heilnæmur sælkeramatur.